Beint í efni

Mjólkursykur nú hluti af verðefnum

14.03.2013

Frá og með næsta ári mun hollenska samvinnufélagið FrieslandCampina taka upp nýja aðferð þegar afurðastöðvaverð er reiknað. Líkt og í öðrum löndum hefur félagið miðað við prótein og fituinnihald, en frá 2014 verður mjólkursykur verðlagður einnig. Þetta eru stórtíðindi í heimi afurðavinnslu og má búast við að önnur afurðafélög líti til FrieslandCampina og fylgist vel með þessari verðlagningu.

 

Ástæðan fyrir því að mjólkursykurinn er verðlagður nú er einfaldlega sú staðreynd að sú mjólk sem berst afurðastöðvunum inniheldur mismikið af mjólkursykri en mjólkursykur hefur klárlega áhrif á skilaverð afurða til afurðastöðvarinnar. Því er þetta skref stigið nú en verðlagningin verður þó lítil í upphafi hjá félaginu. Hlutfall verðefna mjólkurinnar verða frá næsta ári þannig fyrir prótein, fitu og mjólkursykur: 10:5:1. Talið er að þessi nýja verðlagning muni hafa einhver áhrif á um 50% innleggjenda hjá félaginu/SS.