
Mjólkursamsölunni skipt í innlenda og erlenda starfsemi
03.11.2020
Eigendur og stjórn Mjólkursamsölunnar hafa ákveðið að skipta starfseminni upp í sjálfstæð félög í sömu eigu, sem sinni annars vegar innlendri og hins vegar erlendri starfsemi. Er þessi breyting nú rökrétt framhald á þeirri vegferð sem hófst um mitt ár 2018, þegar stofnað var sérstakt dótturfélag um erlenda starfsemi Mjólkursamsölunnar, Ísey útflutningur ehf. Var það gert bæði til að mæta áskilnaði í samningum ríkisins og bænda um fjárhagslegan aðskilnað innlendrar og erlendrar starfsemi, og einnig til að skerpa stjórnunarlegar áherslur og sýn á mismunandi verkefni.
Með breytingunni nú færast Ísey útflutningur og eignarhlutur í móðurfélagi Ísey Skyr Bars í félagið MS erlend starfsemi ehf. og eignarhlutur í bandaríska skyrfyrirtækinu Icelandic Provisions í félagið MS eignarhald ehf. Bæði þessi félög verða í eigu samvinnufélaganna Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga, eins og Mjólkursamsalan ehf. Er hlutur Auðhumlu 80% og KS 20% í öllum félögunum þremur, eins og í Mjólkursamsölunni fyrir breytinguna.
Ari Edwald sem hefur verið framkvæmdastjóri Ísey útflutnings undanfarið rúmt ár, samhliða forstjórastarfi hjá Mjólkursamsölunni, mun hér eftir stýra MS erlendri starfsemi og MS eignarhaldi og alfarið sinna erlendri starfsemi. Pálmi Vilhjálmsson, núverandi aðstoðarforstjóri, verður forstjóri Mjólkursamsölunnar.
Í tilkynningu á vef Auðhumlu segir: „Mjólkursamsalan hefur vissulega fundið fyrir afleiðingum hins alvarlega ástands sem er í samfélaginu í einhverjum mæli eins og allir aðrir, en það er gleðiefni að fyrirtækinu hefur tekist að halda sjó í því mikilvæga samfélagslega verkefni að sækja mjólk til bænda og vinna úr henni og dreifa mjólkurvörum til verslana um allt land. Einnig eru minni frávik í niðurstöðum rekstrar en ætla mætti. Erum við þakklát starfsfólki fyrirtækisins fyrir þá þrautseigju og ábyrgð sem það hefur sýnt á þessum óvenjulegu tímum. Eins og við þekkjum hefur erlend starfsemi verið vaxandi þáttur í heildarumsvifum samstæðu Mjólkursamsölunnar. Líka á þeim vettvangi höfum við náð að halda okkar striki í þeim sviptingum sem ganga yfir og starfsemin heldur áfram að þróast.“