Beint í efni

Mjólkursamsalan slekkur brátt á síðasta olíukatlinum

13.11.2020

Mjólkursamsalan slekkur brátt á síðasta olíukatli fyrirtækisins þegar rafknúinn gufuketill verður tekinn í notkun á Egilsstöðum. Frá þessu er sagt á vef Ríkisútvarpsins. Olía er enn notuð til að hita og gerilsneyða mjólk í öðrum löndum.

„Við erum með gufukatla á starfsstöðvum okkar hringinn í kringum landið og þrátt fyrir COVID þá höfum við getað nýtt starfsfólkið okkar í að breyta gufukötlum. Þessi katlar sem um ræðir þeir búa til gufu til þess að gerilsneyða mjólkina sem er krafa frá stjórnvöldum og í ýmsa aðra vinnslu á mjólkinni. Þannig að þarna teljum við að sé stórt gott lokaskref hjá okkur og fyrir mjólkuriðnaðinn á Íslandi,“ segir Sunna Gunnars Marteinsdóttir, upplýsingafulltrúi MS, í samtali við RÚV.

Fyrirtækið vinnur úr mjólk á fjórum stöðum á landinu. Olíukötlum hafði þegar verið skipt út á Selfossi, Akureyri og í Búðardal en nú hefur síðasti ketilinn verið rafvæddur á Egilsstöðum og bíður tengingar frá RARIK. „Núna á Egilsstöðum mun sparast lauslega áætlað 73,3 tonn af CO2 eða sem nemur 16-18 bifreiðum. Við metum það sem svo að við vitum ekki um aðra mjólkurstöð sem gerir þetta með sama hætti og við. Þannig að við séum í raun einstök með þetta.“ Þá er MS einnig hætt að nota olíukyndingu til að þurrka mjólkurduft og minnkaði losun vegna duftframleiðslu um 95% á árunum 2014 til 2019 sem nemur 4.050 tonnum af CO2-ígildum.