Beint í efni

Mjólkursamningurinn framlengdur um tvö ár

28.09.2012

Í dag var skrifað undir breytingu á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Með breytingunni er gildistími samningsins framlengdur um tvö ár, til ársloka 2016. Breytingar sem gerðar voru í apríl 2009 gerðu ráð fyrir gildistíma til 31. desember 2014. Þá eru nýjar stofnupphæðir lagðar til grundvallar og fyrirkomulagi verðtryggingar er breytt frá því sem nú er. Þá er gerður fyrirvari við samninginn vegna hugsanlegra breytinga á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samningnum fylgir einnig svohljóðandi bókun:

 

Samningsaðilar eru sammála um, á grundvelli greinar 8.2 samningsins, að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013.“  

  

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra og Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra skrifuðu undir samninginn fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar. Haraldur Benediktsson, formaður BÍ og Sigurður Loftsson, formaður LK, skrifuðu undir fyrir hönd Bændasamtaka Íslands, með fyrirvara um samþykki í almennri atkvæðagreiðslu meðal bænda./BHB

 

Breytingar á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, 28. september 2012.