Mjólkurreglugerðin komin
22.06.2004
Þann 16. júní sl. var sett reglugerð um mjólk og mjólkurvörur fyrir næsta verðlagsár. Sá góði árangur náðist að auka greiðslumarkið um 1 milljón lítra, eða um tæpt 1%. Eins og kúabændur vita var ekki útlit fyrir aukningu framan af árinu, en góð sala undanfarið er grundvöllur þessarar aukningar. Jafnframt fór landbúnaðarráðherra að tillögum LK um að auka framleiðsluskildu úr 85% í 90%.
Einna mestar breytingar á reglugerðinni verða þó í tengslum við aðilaskipti með greiðslumark mjólkur, eins og vísað er til í hinum nýja mjólkursamningi og í viljayfirlýsingu BÍ. Í reglugerðinni segir:
„Tilkynningu um aðilaskipti skal fylgja undirritaður samningur þar um, þar sem m.a. skal koma fram nafn samningsaðila, dagsetning samnings, kaupverð, verð á lítra mjólkur og heildarmagn. Einnig skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýlinu. Þá skal seljandi leggja fram þinglýsingarvottorð fyrir það lögbýli sem greiðslumark er selt frá og skriflegt samþykki allra veðhafa fyrir sölunni.
Tilkynningar um aðilsakipti að greiðslumarki, fyrir verðlagsárið 2004-2005, ásamt fylgigögnum skulu hafa borist Bændasamtökum Íslands í síðasta lagi fyrir 20. júní 2005 til að þau taki gildi á verðlagsárinu. Aðilaskiptin taka fyrst gildi þegar staðfesting Bændasamtaka Íslands liggur fyrir.
Bændasamtökum Íslands er heimilt að birta yfirlit yfir viðskipti með greiðslumark. Upplýsingar sem þannig eru birtar skal ekki vera hægt að rekja til einstakra aðila.„