Beint í efni

Mjólkurprótein betri en plöntuprótein!

15.04.2013

Það hefur nú loks verið staðfest opinberlega af FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, að mjólkurprótein eru betri að gæðum en plöntuprótein þegar horft er til nýtingu þeirra fyrir mannskepnuna. Þetta er niðurstaða í nýlegri skýrslu FAO þar sem mælt er með því að taka upp nýja aðferð við mat á meltanleika próteina. Í dag er notuð aðferð sem kallast PDCAAS (Protein Digestibility Correct Amino Acid Score) en FAO leggur nú til nýja aðferð sem kallast DIAAS (Digestible Indispensable Amino Acid Score).
 
Samkvæmt aðferðinni eru gæði mjólkurpróteina 10-30% meiri en sojapróteina. Verði þessi nýja aðferð tekin formlega í notkun þarf að breyta þeim viðmiðum sem notuð eru í dag og dregur fram mikilvægi þess að þegar próteininnihald á vörum er gefið upp, þá skipti verulegu máli hvaðan próteinin koma og hver gæði þeirra eru en eins og áður segir standa mjólkurprótein þar upp úr/SS.