
Mjólkurneysla á sér 8 þúsund ára sögu!
03.08.2019
Öðru hverju kemur upp umræða um það að mjólkin frá skepnunum okkar sé bara fyrir ungviði þeirra og ekki fyrir okkur mannfólkið. Þegar þessu er slegið fram gleymist oft hve samofin mjólkurneysla er þróun mannkyns, enda er talið að mjólkurneysla eigi sér um 8 þúsund ára sögu svo nýting og neysla á mjólk og mjólkurvörum er nú ekki beint ný af nálinni!
Þegar horft er til þróunar á búskap með húsdýr þá er talið að fyrstu húsdýrin hafi verið geitur en fyrstu merki um geitabúskap í heiminum fundust í vesturhluta Asíu og eru ummerkin talin vera 10-11 þúsund ára gömul. Fyrstu vísbendingar um nautgripi sem húsdýr eru nokkuð yngri eða um 9.000 ára gamlar og þessi elstu ummerki fundust í vesturhluta Sahara.
Í upphafi er talið að húsdýrahaldið hafi fyrst og fremst verið til að einfalda fólkinu aðgengi að kjöti í stað þess að stunda veiðar, en fljótlega upp úr þessu hófst mjólkurnýting líka. Það var þó nokkru síðar að mjólkurvinnsla hófst, þ.e. jógúrt- og ostagerð amk. ef miðað er við það sem hefur fundist við fornleifauppgröft. Elstu ummerki um framleiðslu á ostum eru taldar 6.800-7.300 ára gamlar en þá virðist sú uppfinning, að bæta ensímum í mjólk og framleiða osta, hafa náð útbreiðslu. Þessi þekking gjörbreytti nýtingarmöguleikum manna á mjólk, enda var með þessari aðferð í raun hægt að geyma mjólkina mun lengur/SS – ThoughtCo.