Beint í efni

Mjólkurkvótinn í Noregi minnkaður um 2%

27.12.2016

Vegna hárrar birgðastöðu á ostum í Noregi og væntingum um að svo verði áfram á árinu 2017, hefur verið gefið út að norski mjólkurkvótinn verði minnkaður um 2% á komandi ári. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir norsku kúabændurna, enda hafa margir þeirra horft til stækkunar og hagræðingar enda er bústærð í Noregi meira en helmingi minni en hér á landi.

Samkvæmt framleiðsluspá norska samvinnufélagsins TINE, sem birt var í nóvemer sl., var þá útlit fyrir að umframframleiðslan í Noregi stefndi í 27 milljónir lítra árið 2017, en þessi spá var í raun ástæða þess að ákveðið var að draga úr mjólkurkvótanum svo framleiðslan myndi þrýstast niður. Á sama tíma, og norsku kúabændurnir taka á sig tekjuskerðingu vegna samdráttarins, hafa forsvarsmenn norsku bændasamtakanna lagt þunga áherslu á það í samræðum við norsku ríkisstjórnina að ekki verði opnað á innflutning tollfrjálsra osta frá Evrópusambandinu. Það gæti leitt til alvarlegrar stöðu norskrar mjólkurframleiðslu með áframhaldandi samdrætti á mjólkurkvótanum á komandi árum, enda eru norsk kúabú langt frá því í dag að geta framleitt mjólk á jafn lágu verði og helstu mjólkurframleiðslulönd Evrópusambandsins og því fyrirséð að hluti af heimamarkaðinum muni tapast/SS.