Beint í efni

Mjólkurkvótinn fór en fosfórkvótinn kom!

23.04.2016

Þrátt fyrir að mjólkurkvóti Evrópusambandsins sé horfinn á braut þá búa hollenskir kúabændur enn við kvótakerfi, reyndar ekki beint vegna mjólkurframleiðslunnar heldur vegna heimilda hvers bús til þess að bera fosfór á tún og akra. Flestir vita að Hollendingar eru landlitlir og reglur Evrópusambandsins um losun á fosfór gera það að verkum að kúabændur landsins geta ekki framleitt meiri mjólk en nú er gert og raunar þarf að draga úr framleiðslunni þar sem búið er að skerða heimildir til fosfórnotkunar og þarf Holland að draga úr notkuninni um 4-8% í ár.

 

Í Hollandi eru nú um það bil 18 þúsund kúabú sem nú þurfa að draga úr framleiðslunni á ný eftir að flest þeirra juku framleiðsluna verulega eftir að mjólkurkvótinn var lagður af á síðasta ári. Þeir bændur sem draga verulega úr framleiðslunni geta hins vegar um leið selt þann umfram fosfórrétt sem þeir hafa en sé það gert renna 10% af fosfórrétti búsins til svokallaðs fosfórbanka sem hið opinbera ræður yfir. Sá banki mun svo sitja á sínum fosfórkvóta þar til landið reiknast til þess að vera komið undir hámarksheimildir Evrópusambandsins, þegar það gerist verður hægt að kaupa fosfórkvóta af hollenska ríkinu/SS.