Mjólkurkvóti lækkar í verði í Danmörku
04.05.2006
Bráðabirgðaniðurstöður kvótamarkaðarins í Danmörku, sem haldinn var 1. maí liggja nú fyrir. Þær sýna að jafnvægisverðið liggur á milli 3,25-3,30 DKK/kg (40,88-41,51 ISK), með fituhlutfallið 4,36%. Verðið heldur því áfram að lækka, m.v. fyrri markaði. Á markaðnum að þessu sinni er áætlað að 53 milljónir kg skipti um eigendur, 225 framleiðendur muni selja og 495 muni kaupa. Að jafnaði er keypt magn á bú því um 107.000 kg.
Kvótamarkaðurinn í Danmörku virkar í grófum dráttum þannig, að reiknað er út s.k. jafnvægisverð. Það er það verð þar sem magn kvóta sem boðinn er til sölu er jafnt því magni sem óskast keypt. Þeir framleiðendur sem bjóða hærra en eða jafnt og jafnvægisverðið fá keypt á jafnvægisverðinu, þeir sem bjóða lægra fá ekki neitt. Þeir framleiðendur sem bjóða lægra en eða jafnt og jafnvægisverðið fá selt á því verði, þeir sembjóða hærra selja ekki kvótann í það skiptið.
Kvótamarkaðurinn er haldinn fjórum sinnum á ári, 1. maí, 15. ágúst, 1. október og 1. febrúar. Þá má og benda á að í Danmörku er ekki heimilt að afskrifa keyptan mjólkurkvóta, líkt og tíðkast hér á landi. Þá er 1% af umsettu magni á markaðnum sett í sjóð, sem síðan er úthlutað til þeirra bænda sem eru að hefja búskap. Reglur um kvótamarkaðinn má sjá hér. Endanlegt verð og magn verður upplýst á heimasíðu Mælkeudvalget 16. maí n.k. Slóðin þar er www.maelkeudvalget.dk