Beint í efni

Mjólkurframleiðslan í Suður-Ameríku í sókn

11.01.2013

Undanfarin ár hefur verið mikil gróska í mjólkurframleiðslunni í Suður-Ameríku og er nú svo komið áhrifin eru farin að koma fram á heimsmarkaði mjólkurvara. Það eru fyrst og fremst löndin Brasilía og Argentína sem hafa þessi áhrif en í báðum löndum hefur framleiðsla mjólkur aukist verulega á liðnum árum.

 

Í Brasilíu hefur orðið framleiðsluaukning á hverju ári frá árinu 2008 og verður svo áfram í ár samkvæmt skýrslu frá Landbúnaðarstofnun Bandaríkjanna. Svipuð staða er með mjólkurframleiðsluna í Argentínu en þó settu miklir þurrkar og í kjölfar þeirra mikil úrkoma seinnihluta ársins í fyrra strik í reikninginn. Þannig var í júlí spáð 11% framleiðsluaukningu mjólkur í Argentínu en þegar árið var úti nam aukningin ekki nema 3% af framangreindum ástæðum.

 

Sérstaða landanna, enn sem komið er, er lágur framleiðslukostnaður mjólkur sökum lágra launa verkamanna. Blikur eru á lofti í því sambandi og telur Landbúnaðarstofnunin að breytingar verði á næstu árum samhliða batnandi efnahag landanna. Laun muni hækka og sá aðstöðumunur sem nú er á mjólkurframleiðslu landanna mv. flest önnur lönd muni minnka verulega eða hverfa að fullu/SS.