Beint í efni

Mjólkurframleiðslan í Marokkó í þróun

02.06.2012

Marokkó í Norður-Afríku hefur til þessa ekki verið talið til öflugra mjólkurframleiðslulanda enda vinnubrögðin við mjaltir þar í landi enn frekar frumstæð og kúabúin smá. Árleg mjólkurframleiðsla er þó talin nema um 1,5 milljörðum lítra og þar af sér eitt hérað um fimmtung, en það er Doukkala-Abda héraðið, sem er eitt af sextán héruðum Marokkó.

 

Landið er alls 446 þúsund ferkílómetrar en landið gerir jafnframt tilkall til Vestur Sahara og alls er því heildarstærð landsins 710 þúsund ferkílómetrar og því nærri sjö sinnum stærra en Ísland. Í Marokkó búa nú u.þ.b. 32 milljónir manna og í Vestur Sahara um hálf milljón manna. Marokkó er land tækifæranna og samhliða vaxandi velmegun í landinu hefur kaupgeta íbúanna verið að aukast.

 

Nú hefur mjólkurrisinn Nestlé látið til sín taka í landinu, en á stefnuskrá fyrirtækisins er að aðstoða við þróun mjólkurframleiðslu hvar sem þörf er á því. Í samvinnu við heimamenn í Doukkala-Abda héraðinu hefur nú verið sett í gang átaksverkefni til þess að efla og styrkja mjólkurframleiðsluna. Héraðið er fyrir með um 340 milljón lítra framleiðslu, en stór hluti mjólkurinnar er framleiddur á smábúum með 1-2 kýr og þá mjólkin gefin eða seld heima.

 

Átaksverkefnið byggir á því að auka innvigtun mjólkur til afurðastöðva um 10% fyrir árið 2014 og til þess að ná þessum árangri mun Nestlé fjárfesta í héraðinu fyrir u.þ.b. 700 milljónir króna. Þessum fjármunum verður fyrst og fremst varið til þróunaraðstoðar og verða 10 þúsund bændur settir á námskeið í nautgriparækt, þá mun fyrirtækið einnig fjárfesta í mjaltatækni ofl.

 

Nestlé hóf starfsemi sína í Marokkó árið 1992 svo þeir þekkja vel til og í dag fær Nestlé um 73 milljónir lítra til sinnar afurðastöðvar í borginni El-Jadida frá nærri 16.000 kúabúum. Þetta gera u.þ.b. 4.500 lítra að jafnaði frá hverju búi á hverju ári, sem sýnir vel stöðu mjólkurframleiðslunnar í landinu/SS.