Mjólkurframleiðslan í Litháen
03.10.2015
Ársfundur IDF (International Dairy Federation – alþjóðasamtök aðila í mjólkuriðnaði) var haldinn í síðustu viku í Vilníus í Litháen og voru þátttakendur á fundinum um 1.200. Ársfundurinn flyst á milli landa í hvert skipti og þar sem Litháen varð fyrir valinu er ekki úr vegi að greina aðeins frá kúabúskapnum þar í landi. Alls voru þann 1. ágúst sl. skráð 57.500 kúabú í landinu með 314.300 mjólkurkýr svo meðalbúið er ekki með nema 5,5 kýr að jafnaði. Til þess að setja þennan fjölda búa í samhengi þá er í Litháen u.þ.b. 1 kúabú á hverja ca. 50 íbúa í landinu en hér á landi er þetta hlutfall u.þ.b. 1 bú á hverja 490 íbúa. Kúabúskapur er því afar mikilvægur í landinu og margir sem tengjast kúabúskap.
Þar sem bústærðin er lítil liggur í hlutarins eðli að hlutfallsleg heimanot eru mikil en einnig er nokkuð um beina sölu frá búum. Reiknuð meðalnyt, miðað við innlagða mjólk, var því ekki nema 4.566 kg á hverja kú en ætla má að meðalafurðasemin sé töluvert meiri.
Ársframleiðsla mjólkur árið 2014 voru 1.435 milljónir lítra sem var veruleg aukning frá árinu 2013 þegar framleiðslan var 1.340 milljónir lítra. Þessi mjólk var veginn inn í 20 móttökustöðvar mjólkur í landinu en í Litháen eru aðallega samvinnufélög bænda sem vinna úr mjólk. Stór hluti þessa magns fer svo til útflutnings, sér í lagi sem ostar enda landið þekkt fyrir þá framleiðslu sína/SS.