Beint í efni

Mjólkurframleiðslan í Ástralíu

19.05.2012

Þegar nautgriparækt Ástralíu ber á góma er oftast verið að fjalla um kjötframleiðsluna, en þar í landi er einnig mikil mjólkurframleiðsla.

 

Alls voru í landinu við síðustu áramót 8.594 kúabú í mjólkurframleiðslu með um 1,6 milljónir kúa og nam framleiðsla búanna 9.102 milljónum lítra árið 2011. Meðalbúið er því með um 186 mjólkurkýr og 1,1 milljón lítra framleiðslu sem gerir að jafnaði um 5.700 lítra á kúna. Alls starfa um 27.500 við mjólkurframleiðsluna í landinu eða 3,2 að jafnaði á hvert kúabú.

 

Ástralir neyta árlega um 12,9 kg af ostum, 7,1 kg af jógúrtvörum og drekka að jafnaði 102 lítra mjólkur. Þegar horft er til iðnaðarins fer því eðlilega stærstur hluti mjólkurinnar til ostaframleiðslu eða um 34%. Þar á eftir kemur svo framleiðsla á drykkjarmjólk með um 25% og svo framleiðsla á smjöri og undanrennudufti sem um 24% mjólkurinnar fer í. Ástralir framleiða einnig þónokkuð af mjólkurdufti (11%) en afgangur framleiðslunnar eða um 550 milljónir lítra fara svo í aðra framleiðslu.

 

Þrátt fyrir mikla stærð er mjólkuriðnaðurinn ekki nema sá þriðji stærsti innan landbúnaðarins. 55% framleiðslunnar fer til sölu á heimamarkaði en afgangurinn fer til útflutnings og sinna Ástralir um 10% heimsmarkaðarins með mjólkurvörur. Stærstu aðilarnir á þeim markaði eru hinsvegar Nýja-Sjáland (með um 35%) og svo lönd Evrópusambandsins (með um 32%). Ástralir eru lítið að reyna við markaði sem eru langt í burtu og eru helstu viðskiptalönd þeirra með mjólkurvörur Japan (með 19%), Kína (með 10%) og Singapúr (með 9%)/SS – Australia Farm Facts 2012.