Beint í efni

Mjólkurframleiðslan heldur minni fyrstu fjóra mánuði ársins

14.05.2011

Samkvæmt yfirliti frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var sala á mjólkurvörum í apríl heldur meiri í ár en á sama tíma í fyrra. Fram kemur í skýringum frá SAM að vegna breytilegs fjölda söludaga á milli samanburðarmánaða, s.s. vegna helgidaga, er samanburður á mánaðargrunni ónákvæmur.

 

Þegar litið er hinsvegar til sölunnar síðustu 12 mánaða kemur fram að salan hefur heldur verið að dragast saman. Samdrátturinn í sölu á próteingrunni nemur 1,9% og á fitugrunni er samdrátturinn 1,4%. Ítrekað skal að þessi reiknaði samdráttur er eingöngu í notkun á mjólk til framleiðslu þeirra vara sem seldust og á ekki við um einingarfjölda eða t.d. verðmæti seldra vara.
 
Þessu samhliða er framleiðsla mjólkur á kúabúum landsins töluvert minni það sem af er ári, miðað við árið 2010 og munar 1,9% á milli áranna. Alls hafa kúabú landsins nú framleitt 41,9 milljónir lítra mjólkur á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en í fyrra var framleiðslan á sama tíma 42,7 milljónir lítra/SS.