Beint í efni

Mjólkurframleiðslan áfram mikil

05.08.2015

Í liðinni viku var innvigtun mjólkur 2.847.000 lítrar. Þetta er tæplega 15% meiri framleiðsla en á sama tíma fyrir ári og ríflega fjórðungi meira en árið 2013. Af þessu má ráða að bændur hafa náð mjög miklum árangri í að svara kalli um aukna framleiðslu mjólkur. Samkvæmt þessu eru horfur á því að framleiðsla yfirstandandi árs verði meiri en greiðslumark ársins, sem er 140 milljónir lítra. Sú ákvörðun greiðslumarksins byggði á spá um 3,5% söluaukningu á fitugrunni frá fyrra ári, auk nauðsynlegrar uppbyggingar á birgðum mjólkurvara, sem verið höfðu í algeru lágmarki.

 

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði sendu nýverið bréf til bænda, þar sem farið er yfir stöðuna í framleiðslu og sölu mjólkurafurða. Í bréfinu segir m.a.:

 

Síðustu ár hefur sala fituríkari mjólkurvara aukist hratt.  Vegna þessarar miklu söluaukningar hefur greiðslumark verið aukið síðustu verðlagsár, samhliða því að lögð hefur verið áhersla á að halda háu fituinnhaldi í mjólk.  Þessar aðstæður hafa reynt á framleiðslugetu kúabúa á Íslandi, en bændur hafa brugðist vel við og það ber að þakka. Nú bendir allt til þess að mjólkurframleiðsla verði yfir 140 milljónum lítra árið 2015.

 

Fyrir verðlagsárið 2015 lagði SAM til að greiðslumark ársins yrði 140 milljónir lítra.  Birgðir mjólkurafurða í árslok 2014 voru óeðlilega litlar og 4 milljónir lítra af greiðslumarki ársins 2015 voru áætlaðar til birgðaaukningar, en sala mjólkurafurða árið 2015 var áætluð 136 milljónir lítra.

 

Nú hefur hægt nokkuð á söluaukningu mjólkurafurða.  Samhliða hafa framleiðsla og birgðir aukist og jafnvægi er því náð á milli framleiðslu, sölu og birgða mjólkurafurða í landinu.

Þrátt fyrir að hægt hafi á söluaukningu mjólkurafurða eru ekki taldar líkur á öðru en sala mjólkurafurða komi til með að aukast næstu ár vegna  aukins fólksfjölda og fjölda ferðamanna. Gert ráð fyrir að söluaukningin verði hægari en verið hefur síðustu árin.

 

Hjá SAM er hafinn undirbúningur að gerð tillögu að greiðslumarki ársins 2016.  Endanleg tillaga mun liggja fyrir um miðjan september, en í ljósi hægari söluaukningar og bættrar birgðastöðu eru allar líkur á að tillaga SAM um greiðslumark ársins 2016 muni fela í sér lækkun frá greiðslumarki ársins 2015.

 

Samkvæmt þessu bendir flest til þess að nokkur samdráttur verði á greiðslumarki ársins 2016 frá yfirstandandi ári, þó áfram sé gert ráð fyrir umtalsverðri söluaukningu innanlands þegar til lengri tíma er litið. Afurðastöðvar hafa lýst því yfir að greitt verði fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk, út árið 2016. Mikilvægt er að sá vaxandi þróttur sem náðst hefur í mjólkurframleiðslu hérlendis, verði nýttur til aukinnar markaðssóknar, innanlands sem utan./BHB

 

Vikuinnvigtun mjólkur fram til 1. ágúst 2015