
Mjólkurframleiðsla Úganda á réttri leið
26.09.2017
Afurðafyrirtækið Fresh Dairy í Úganda er í örum vexti samhliða aukinni áherslu á bætt mjólkurgæði. Þar í landi hafa viðskipti með mjólk mikið til farið fram þannig að bændur selja mjólk sína ókælda í þar stil gerða mjólkurflutningabíla, sem svo keyra með mjólkina í safnstöðvar. Þaðan er svo mjólkinni ekið til afurðastöðvar og oft er mjólkin ekki kæld niður á allri þessari leið.
Fresh Dairy fór í átak til þess að ná fram bættum mjólkurgæðum með því að efla vitund og þekkingu á mikilvægi kælingar á mjólk allt frá mjöltum og að afurðastöð. Þá var jafnframt unnið að því að bæta tæknilegar lausnir til mjólkurkælingar á svæðum þar sem hefðbundnar lausnir gengu illa eða ekki. Þetta kann að virka framandi á íslenska kúabændur sem búið hafa við mjólkurkælingu í áratugi, en tilfellið er að víða um heim er hreinlega afar erfitt að koma kælingu við vegna aðstöðuleysis. Auk þess vantar víða þekkingu á mikilvægi kælingar á mjólkurgæði.
Átak fyrirtækisins, sem hófst fyrir þremur árum og var unnið með 80 mismunandi hreyfingum bænda víða um Úganda, hefur nú skilað bæði bættum mjólkurgæðum og stórbættum skilum mjólkur í afurðastöð en dagleg innvigtun Fresh Dairy hefur nú farið úr 80 þúsund lítrum á dag í 350 þúsund lítra á dag. Árleg innvigtun Fresh Dairy er því komin í um 130 milljónir lítra, en árleg innvigtun alls landsins er nú um 2,2 milljarðar lítra/SS.