Beint í efni

Mjólkurframleiðsla Nýsjálendinga jókst um 10% á síðasta ári

07.08.2012

Uppgjör síðasta framleiðsluárs á Nýja-Sjálandi, sem endaði í lok maí sl., sýnir framleiðsluaukningu um ríflega 10% frá árinu á undan. Varð heildar mjólkurframleiðslan 19,7 milljarðar lítra (1,7 milljarðar kg af verðefnum). Spár gera ráð fyrir að framleiðslan haldi áfram að aukast á framleiðsluárinu sem er ný hafið, en þó heldur minna en í fyrra, eða á bilinu 4-5%. Tíðarfar hefur þó sitt að segja í þeim efnum en sem kunnugt er byggir nýsjálensk mjólkurframleiðsla nær alfarið á beitarbúskap, þannig að hún er viðkvæm fyrir sveiflum í úrkomu og hitafari. Þá hófst eldgos í Tongariro eldfjallinu á miðri Norðureyjunni í gærkvöldi, en búist er við því að það hafi lítil áhrif á landbúnaðinn þar syðra þrátt fyrir talsvert öskufall.

 

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, hefur verið mikill vöxtur í nýsjálenskri mjólkurframleiðslu á undanförnum árum og sér ekki fyrir endann á honum. Fyrir áratug var framleiðslan 13,6 milljarðar lítra en er nú komin í 19,7 milljarða eins og áður segir. Það er 45% aukning. Fyrir 20 árum var hún um 6 milljarðar lítra, þannig að framleiðslan hefur ríflega þrefaldast frá þeim tíma./BHB

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Dairy Industry Newsletter og New Zealand Dairy Statistics 2010-11