Beint í efni

Mjólkurframleiðsla helstu svæða að aukast á ný

21.04.2017

Árið 2015 og framan af 2016 var mjólkurframleiðsla fimm helstu framleiðslusvæða heimsins mjög mikil, eins og margoft hefur komið fram, og olli þessi mikla framleiðsla verðhruni mjólkur og mjólkurvara á heimsmarkaðinum með tilheyrandi áföllum fyrir hundruði þúsunda kúabúa víða um heim. Upp úr miðju ári 2016 fór svo að draga verulega úr framleiðslunni í bæði Evrópusambandinu, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Argentínu en lítið sem ekkert lát var þó á aukningunni í Bandaríkjunum. Hin fjögur stóru framleiðslusvæðin drógu hins vegar svo mikið úr framleiðslunni að heildarframleiðsla allra fimm svæðanna dróst saman og ef heildarframleiðslan frá því í fyrra er borin saman við nýjustu tölur í ár sést heildarsveifla, á einu ári, niður á við upp á nærri 12 milljarða lítra!

Þessi mikla breyting á framleiðslu hefur þegar breytt miklu, þegar horft er til verðs á heimsmarkaðinum, og hefur það auðvitað skilað sér beint í afurðastöðvaverði í framangreindum löndum. Það hefur aftur leitt til aukinnar framleiðslu á ný en þó er þróunin heldur hægari nú en oft áður samkvæmt nýrri samantekt bresku bændasamtakanna. Vonir standa því til þess að markaðurinn nái að aðlaga sig að aukinni framleiðslu án þess að nýtt hrun verði/SS.