Beint í efni

Mjólkurframleiðsla ESB að ná jafnvægi

04.06.2016

Eftir nærri því eitt og hálft ár með lágt afurðastöðvaverð er nú farið að sjást þess berleg merki á evrópskri mjólkurframleiðslu. Skuldsettustu búin lenda eðlilega undir í samkeppninni við hin skuldminni og hefur gjaldþrotahrina leitt til stóraukinnar slátrunar kúa víða í Evrópu. T.d. hefur slátrun kúa í Þýskalandi aukist um 16% það sem af er þessu ári enda er afurðastöðvaverð þar nú ekki nema 28 krónur á kíló mjólkur en meðal framleiðslukostnaður talinn vera um 56 krónur. Það er því verulegt hreint tap á mörgum kúabúum í Þýskalandi.

 

Staðan er ekki mikið betri í Svíþjóð en nýleg könnun meðal kúabænda þar bendir til þess að annar hver kúabóndi landsins sé að velta fyrir sér að hætta í mjólkurframleiðslu. Þá höfum við áður sagt frá fosfórkvótanum í Hollandi sem hamlar þróun framleiðslunnar þar. Í Danmörku er þessu aðeins öðruvísi farið en þar er skuldastaða margra búa erfið en meðalbústærðin hins vegar það stór að fjármálafyrirtækin virðast halda þeim lengur á floti. Írsku bændurnir virðast standa einna best sem stendur en kúabúin þar eru með þeim skuldminnstu innan Evrópusambandsins.

 

Það sem hefur þessi staða hefur svo leitt af sér er að mjólkurframleiðslan hefur verið að minnka undanfarið. Búist var við mikilli framleiðsluaukningu í ár en vegna hins lága afurðastöðvaverðs hefur aukningin verið mun minni en fyrst var spáð. Þannig varð 2,3% aukning á heildarframleiðslunni í apríl en ekki nema 0,1% í maí samkvæmt nýju uppgjöri frá Evrópusambandinu. Nú er því spáð að heildar framleiðsluaukning ársins verði ekki nema 1,4% og ætti markaðurinn innan landa Evrópusambandsins að geta sjálfur tekið við því viðbótarmagni á árinu/SS.