Beint í efni

Mjólkurframleiðsla á Nýja-Sjálandi minnkar um 3,5% milli ára

30.04.2008

Að mati nýsjálenska mjólkurrisans Fonterra, verður mjólkurframleiðslan þar syðra 3,5% minni á þessu framleiðsluári sem lýkur 31. maí n.k. Minnkunin nemur um 80 þúsund tonnum verðefna. Mikil úrkoma núna í aprílmánuði kom of seint til að bjarga málunum á Norðureyjunni, sem hefur orðið verst út í þurrkum síðustu mánaða en þar er að finna um 70-80% af mjólkurframleiðslu Nýsjálendinga.

Flestir bændur í aðal mjólkurframleiðsluhéruðum landsins, Waikato og Taranaki hafa nú þegar gelt upp allar kýr sínar, þannig að mjólkurframleiðslu þar er að mestu lokið þetta tímabilið. Að vonum standa kýrnar þá geldar fram í lok júlí þegar burður hefst.

 

Fyrir fáeinum mánuðum gerði Fonterra ráð fyrir 3% aukningu í mjólkurframleiðslunni á þessu framleiðsluári. Niðurstaðan verður aftur á móti 3,5% minnkun. Það kemur illa við framboð mjólkurafurða á heimsmarkaði, þar sem Nýsjálendingar eru stórir leikendur.