Beint í efni

Mjólkurfélag Reykjavíkur skiptir um nafn

09.11.2005

Hið gamalgróna fyrirtæki, Mjólkurfélag Reykjavíkur, sem stofnað var 1917, mun hér eftir bera nafnið Lífland. Þessi ákvörðun var tekin vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á starfsvettvangi fyrirtækisins frá stofnun þess. Einnig hefur fyrirtækinu verið mörkuð ný stefna, „þar sem megináhersla er lögð á framúskarandi þjónustu sem kemur til móts við síbreytilegar óskir viðskiptavina með auknu vöruvali, sérhæfingu og snerpu“, eins og segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Einnig segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins að nafnið „vísar til þess að starfsemi fyrirtækisins tengist nú mannlífi og dýralífi í landinu á mun breiðara sviði en í árdaga. Þannig verður nýja heitið samnefnari fyrir fjölþætta þjónustu og ráðgjöf er lýtur að landbúnaði, hestaíþróttum, dýrahaldi og útivist.“

Höfuðstöðvar Líflands eru við Korngarða í Reykjavík, þar sem verksmiðja  og fóðurafgreiðsla fyrirtækisins eru til húsa, en ný verslun fyrir bændur, hestamenn, sumarbústaðaeigendur og fleiri er á Lynghálsi 3.