Mjólkin seld beint úr sjálfsala
22.09.2010
Nokkrir þýskir kúabændur hafa nú tekið til sinna ráða til þess að bregðast við heljartaki lágvöruverslana á mjólkurafurðasölu en undanfarið hafa lágvöruverslanir þvingað verð til bænda niður. Mjólk hefur þannig verið notuð sem afar sterk viðskiptavara í verðstríði lágvöruverslana og hefur það komið beint niður á þýskum kúabændum. En hvað er til ráða þegar stórar verslunarkeðjur hafa ógnartak á mjólkurframleiðslunni? Jú sala beint til neytenda úr mjólkurdælustöðvum við hraðbrautir! Mjólkurdælustaðirnir virka í raun líkt og bensínstöðvar, þar sem neytendur geta
fyllt á eigin umbúðir úr sérstökum dælum. Einnig er hægt að fá mjólk á þessum stöðvum í tilbúnum umbúðum. Þjóðverjar kalla þessar stöðvar Milchtankstelle eða mjólkurtankstöðvar og eru þær alsjálfvirkar.
Ná til mun fleiri
Kúabóndinn Bruno Stauf hefur mikla reynslu í sölu á mjólk beint til neytenda en áður fyrr seldi hann mjólk beint á búi sínu. Þar náði hann til frekar fárra neytenda, en eftir að hann fór að selja mjólk í sjálfvirkri mjólkursölustöðinni hefur orðið mikil breyting á sölunni. Hann á sjálfur mjólkurdælustöðina, sem er staðsett í smábænum Neunkirchen-Seelscheid, 36 km fyrir utan Köln. Bruno er með 78 kýr og fer nú öll mjólkin úr þeim í stöðina. Viðskiptavinirnir koma svo bara með fötur eða eigin flöskur og setja undir stútinn á mjólkurdælunni, skella korti eða peningum í vélina og svo fylla þeir einfaldlega sjálfir á ílátin. Með því að selja mjólkina með þessum hætti hefur Bruno náð að hækka verulega verðið sem hann fær fyrir mjólkina en verð til kúabænda hefur nú verið all lágt í marga mánuði vegna verðstríðsins.
Mun dýrara fyrir neytandann
Á sama tíma og verslunarkeðjurnar berjast um kúnnana með því að halda mjólkurverðinu langt undir kostnaðarverði, þá selur Bruno mjólkina sína á mun hærra verði og neytendurnir kunna að meta þjónustuna, enda selur hann alla mjólk sem hann framleiðir með framangreindum hætti.
Þess má geta að í Þýskalandi er ekki sama samstaða meðal bænda um afurðasölukerfi og þekkist á Norðurlöndunum og því eru verðstríð algeng og margir bændur þurft að horfa á stöðugt fallandi verð á mjólk.