Beint í efni

Mjólka vill kaupa umframmjólk af kúabændum

17.05.2005

Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag var viðtal við Ólaf Magnússon, framkvæmdastjóra mjólkursamlagsins Mjólku, þar sem fram kom að fyrirtækið vilji kaupa umframmjólk af kúabændum. Sagði Ólafur að kúabændur hafi þegar sýnt hugmyndinni mikinn áhuga og að fyrirtækið ætli að bjóða hærra verð fyrir umframmjólkina en þau mjólkursamlög sem fyrir eru í landinu.

Ólafur telur ekkert banna að mjólkurvörur séu framleiddar utan kerfis en fyrirtækið ætlar í fyrstu að framleiða feta-osta.

 

Í viðtalinu sagði Ólafur jafnframt að greiðslur fyrir umframmjólkina muni byggjast á afkasta- og árangurstengdu verðmyndunarkerfi og þeir sem búi næst fyrirtækinu muni fá besta verðið. Einnig standi til að vega inn í verðið hversu mikla mjólk viðkomandi bóndi leggi inn, sem og hve margir leggi inn mjólk frá sama framleiðslusvæði.

 

Að lokum sagðist Ólafur ekki ætla að gefa út hve mikið fyrirtækið ætli að borga kúabændum fyrir umframmjólkina, en sagði þó að verðið yrði hærra en það sem þær afurðastöðvar sem fyrir eru í landinu ætli að greiða kúabændum.

 

Þess má geta að á aðalfundi Landssambands kúabænda kom fram í ávarpi Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, að hann hafi skoðað málefni Mjólku með sínu ráðuneyti og væri þeirrar skoðunar að hver og einn eigi rétt á því að meta sína hagsmuni eins og þeir standi. Bændur geti því ákveðið að standa utan búvörusamninga og hins opinbera kerfis og taka þannig ekki á sig réttindi og skyldur sem felast í búvörusamninginum.