
Mjólka einu sinni á dag!
11.08.2017
Á nokkrum stöðum í heiminum tíðkast að mjólka kýr einungis einu sinni á dag og nú berast fréttir erlendis frá af auknum áhuga kúabænda á þessari aðferð. Það er vissulega ógerningur að vera með mjög hámjólka kýr og stunda mjaltir einu sinni á dag, en sé afurðasemi kúnna ekki mjög mikil, rétt eins og víða er þar sem mjólkurframleiðslan byggir á beit, er þetta amk. leið sem vert er að skoða.
Í Nýja-Sjálandi er þessi aðferð stunduð víða og m.a. er rekið tilraunabú við háskólann í Massey þar sem þessi aðferð er stunduð og rannsökuð. Þeirra reynsla er áhugaverð enda er hægt að snarminnka launa- og hálffastan kostnað við hvern framleiddan líter með svona framleiðsluaðferð. Þá hefur starfsfólk tilraunabúsins einnig komist að því að þessi aðferð hentar kúm afar misvel og er enganvegin hægt að alhæfa um ágæti eins kúakyns umfram annars þegar mjaltir einu sinni á dag eru skoðaðar. Þar er horft sérstaklega til sterkrar uppbyggingar á júgrinu og júgurfestingum, enda er mikið álag sem fylgir þessari framleiðsluaðferð/SS.