Mjólk til verndar regnskógunum!
27.06.2011
Sænska afurðastöðin Östgöta Mjölk hefur nú sett á markað sérstaka umhverfisvæna mjólk, til varnar regnskógunum. Mjólkin byggir á framleiðslu kúabúa sem nota ekki kjarnfóður sem blandað er hráefnum unnum úr soja eða olíu frá pálmatrjám. Samkvæmt fréttatilkynningu hefur notkun á slíkum hráefnum óbein áhrif á regnskógana, þar sem regnskógarnir í Indónesíu og Brasilíu eru felldir í stórum stíl til þess að búa til ræktarland fyrir framangreinda framleiðslu.
Talið er að 5 milljón hektarar af landi regnskóganna séu felldir árlega, þessi árin, undir soja- og pálmaræktun. Í Svíþjóð er um 30% hráefna í kjarnfóðri er úr próteini og þar af kemur 25% úr soja og 15% úr pálmaolíu.
Það eru þrjú kúabú í Svíþjóð sem standa á bak við þessa markaðssetningu á mjólk til verndar regnskógunum. Í stað framangreindra hráefna í fóðri kúnna leggja búin aukna áherslu á gróffóður, repjuolíu og belgjurtir og byggja búin þannig á heimaframleiðslu eða í það minnsta framleiðslu innan landsins að stærstum hluta. Mjólkin stendur neytendum svo til boða í Stokkhólmi og Östergötlandi á töluvert hærra verði en hefðbundin neyslumjólk/SS.