Mjólk með döðlubragði?
16.06.2012
Fyrir hartnær ári síðan greindum við frá því að í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum væri á boðstólum drykkjarmjólk frá kameldýrum. Undanfarið ár hefur gengið vel með markaðssetninguna og nú hefur fyrirtækið sem selur mjólkina, Al Ain Dairy, sett á markað bragðbætta drykkjarmjólk.
Það væri nú vart í frásögur færandi ef ekki væri um nokkuð óvenjulega bragðbætingu að ræða, amk. fyrir okkur Íslendinga. Þannig stendur þarlendum til boða að kaupa sér kamelmjólk með döðlubragði, nú eða skella sér á flösku af kamelmjólk með kardimommubragði! Þá er til heldur hefðbundnari útgáfa með kakóbragði, en einnig er hægt að fá kamelmjólk með saffranbragði. Mjólk kameldýra þykir afar heppileg fyrir þá sem eiga erfitt með að melta mjólkursykur og er hún auk þess rík af B- og D-vítamínum.
Með því að smella hér má sjá fréttina frá því á síðasta ári/SS.