Beint í efni

Mjólk fyrir fólk með ofnæmi

26.10.2012

Enn einu sinni berast nú fréttir af notkun á erfðatækni til þess að fá fram kýr sem geta framleitt mjólk með sérstöku efnainnihaldi, eða hreinlega án einhverra efna. Áður höfum við greint frá klónuðu kúnni Lake í Mongólíu sem framleiðir ekki mjólkursykur, en sem kunnugt er hafa sumir sk. mjólkursykuróþol. Þá er skemmst að minnast klónuðu kýrinnar Rositu í Argentínu sem er sjálf með mennskt gen og framleiðir mjólk sem er eins að efnainnihaldi og brjóstamjólk kvenna. Nú hafa svo vísindamenn í Nýja-Sjálandi slegist í hópinn.
 
Að þessu sinni var horft til próteingerðar mjólkurinnar og þar er kvígan Daisy nr. 14 (sjá meðfylgjandi mynd), sem er 11 mánaða gömul, í sérflokki. Erfðaefni hennar var breytt með hormónameðhöndlun á fósturstigi og í dag getur hún eingöngu framleitt mjólk sem inniheldur ekki mysuprótein (beta-lakctoglobulin -BLG) sem sumir hafa ofnæmi fyrir.
 
Mjólkin frá Daisy er hinsvegar afar próteinrík en bara án mysupróteinsins. Það voru vísindamenn hjá háskólanum í Waikato sem stóðu á bak við hina mysupróteinsnauðu Daisy/SS.