Beint í efni

Mjólk frá kúm á beit merkt sérstaklega

11.02.2017

Hér á landi fara að sjálfsögðu allar kýr á beit á sumrin en það er svo í fæstum löndum í kringum okkur og oftast eru kýrnar inni allt árið um kring. Í Englandi er nú komin á markað drykkjarmjólk sem er sérstaklega vottuð frá kúm sem fara á beit „þegar það er hægt“ eins og stendur í auglýsingunni. Þessi nýja afurð á enska markaðinum kallast „Enjoy Milk“ sem á íslensku mætti þá kalla „Njóttu mjólkur“. Þeir sem standa að þessari framleiðslu eru utan helstu stóru afurðafélaganna í Englandi og hafa sérstaklega bent á að kaupi neytendur þessa drykkjarmjólk þá renni allur ágóðinn beint til bændanna sem að framleiðslunni standa. Svolítið sérstök áhersla þegar stærsta afurðafélagið á Enska markaðinum er einmitt samvinnufélag kúabænda en vissulega eru í Englandi stórar einkareknar afurðastöðvar einnig, sem væntanlega er verið að vísa til með þessari áherslu.

Hvort þetta nýja vörumerki innan drykkjarmjólkur nái fótfestu skal ósagt látið en vissulega áhugavert skref sem er verið að stíga og dregur fram þá einstöku sérstöðu sem við höfum yfir að búa á Íslandi – þar sem það þykir einfaldlega sjálfsagt mál að kýr fari á beit og er því ekki markaðssett sérstaklega. Etv. eitthvað sem ástæða væri til að skoða nánar, nú þegar sýnt er að innflutningur mjólkurvara muni aukast á komandi misserum/SS.