Beint í efni

Mjólk frá Danmörku til Kína!

27.10.2012

Það kann að hljóma ótrúlega en Arla mun nú í nóvember hefja framleiðslu á lífrænni mjólk fyrir kínverska markaðinn. Alls er um að ræða sölu á 35 milljónum lítra sem framleiddir verða á 70 lífrænt vottuðum kúabúum í Danmörku. Mjólkinni verður safnað í þremur lotum (5-15 milljónir lítra í einu) og hún vigtuð inn í afurðastöðina í Holstebro. Þaðan verður mjólkinni dælt um borð í tankbíla sem sem aka til MUH í Þýskalandi, sem Arla sameinaðist einmitt við á dögunum við, þar sem mjólkin verður háhitameðhöndluð. Síðan verður mjólkin sett í sérstaka flutningagáma og svo siglt alla leið til Kína!
 
Háhitameðhöndluð mjólk, sem svipar til G-mjólkur hér á landi, hefur 6-9 mánaða geymsluþol þannig að þótt siglingin taki væntanlega á annan mánuð, þá verður enn nokkuð langur tími eftir af ”dagsstimplinum”. Að það skuli hinsvegar borga sig að framleiða lífræna mjólk í Danmörku, aka henni til Þýskalands, vinna þar og sigla svo alla leið til Kína er hinsvegar stórmerkilegt og sýnir vel að sé rétt staðið að markaðssetningu þá er nánast allt framkvæmanlegt/SS.