Beint í efni

”Mjólk er þykkari en vatn”

02.02.2013

Í gær sögðum við frá tilraunum með framleiðslu á mjólkurþykkni á dönskum kúabúum en nú berast skemmtilegar fregnir af auglýsingaherferð frá frændum vorum Svíum. Vegna lágs afurðaverðs á mjólk og þar með versnandi hags kúabænda, tóku íbúarnir í Jämtland sig til í samvinnu við verslunarkeðjuna Ica að greiða sérstaklega hærra verð fyrir mjólkina og rann allur ”ágóðinn” beint til kúabændanna í héraðinu. Var herferðin kölluð ”Mjölk är tjockare än vatten” eða mjólk er þykkari en vatn og gekk þetta átak einstaklega vel.

 

Alls greiddu neytendur rúmar 20 krónur aukalega fyrir mjólkurpottinn og þrátt fyrir umtalsvert hærra verð fyrir mjólkina, jókst salan um 15% og þá þrjá mánuði sem átakið varði greiddu neytendur alls sem nam 8 milljónum íslenskra króna aukalega á mánuði fyrir mjólkina sína.

 

Nú stendur til að fara í sambærilegt átak í Värmland en verulega hefur hallað undan fæti þar í mjólkurframleiðslunni og eru einungis 7.500 kýr eftir í héraðinu. Ef átakið gengur jafn vel og í Jämtland, geta bændur í Värmland búist við aukagreiðslu á mánuði upp á um 1.300 íslenskar krónur á hverja kú. Meðalbúið í héraðinu er með um 64 kýr og þýðir þetta því um 80 þúsund krónur aukalega og munar svo sannarlega um minna hjá aðþrengdum kúabændum nú til dags/SS.