Mjólk er mjólk!
26.09.2015
Alþjóðastofnunin CODEX, sem er hluti af Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) hefur enn undirstrikað formlega skilgreiningu á því hvað mjólk sé! Íslenskir kúabændur vita mæta vel hvað mjólk er, en víða erlendis hafa margskonar drykkir komið á markað og verið kallaðir „mjólk“. Dæmi um þetta er drykkur sem framleiddur er úr sojabaunum og hefur verið markaðssettur sem „soja-mjólk“. En til þess að taka af allan vafa þá má ekki selja drykki sem mjólk, nema um raunverulega mjólk sé að ræða – þ.e. sem á uppruna sinn í búfé.
Þessi skilgreining er reyndar ekki ný af nálinni og má finna staðalinn um hvað sé „mjólk“ t.d. frá árinu 1999 en stórfyrirtæki, sér í lagi sem vinna vörur úr sojabaunum, hafa gert harða hríð að orðnotkuninni „mjólk“. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir markaðssetningu mjólkur og mjólkurvara í þróunarlöndum, þar sem mjólk er ekki þekkt vel þekkt á slíkum mörkuðum. Í þróuðum löndum skiptir þetta minna máli, ef horft er frá því að með því að nefna drykk mjólk án þess að um mjólk frá skepnum sé að ræða, er í raun verið að svindla á neytendum þar sem augljóslega er verið að vísa til hollustu og hreinleika mjólkur á fölskum forsendum/SS.