Beint í efni

Mjög góð sala á mjólkurvörum, ostum og viðbiti fyrstu 9 mánuði ársins

15.10.2008

Sala á mjólkurvörum hefur gengið mjög vel að undanförnu. Sala ferskvöru var 8,3% meiri í september 2008 en í sama mánuði í fyrra. Í ostum og viðbiti var aukningin enn meiri, sala þessara vara jókst um 11,2% miðað við september 2007. Ef litið er til söluþróunar síðustu 12 mánaða sést að ferskvaran er með 1,4% aukningu. Undanfarin ár hefur verið samdráttur í þeim flokki, aðallega í drykkjarmjólkinni, þannig að vonandi er hér um ánægjulegan viðsnúning að ræða. Þróun í sölu osta og viðbits undanfarið ár er jákvæð um 4,4%.

Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu sölunnar á próteingrunni (hversu mikil mjólk fer í hvern vöruflokk), annars vegar á síðasta verðlagsári (1. september 2007-31. ágúst 2008) og hins vegar á almanaksárinu 2003. Þar sést greinilega hversu glæsilegur árangur hefur náðst í sölu á mjólkurvörum á tímabilinu, en aukningin nemur tæpum 8,9 milljónum lítra.

 

Vöruflokkur Verðlagsárið 2007-2008, lítrar Almanaksárið 2003, lítrar Mismunur
Mjólk 42.409.125 43.321.854 -912.729
Ostar 47.408.007 39.251.704 8.156.303
Jógúrt 2.871.451 2.749.230 122.221
Duft 6.870.557 6.701.249 169.309
Viðbit 2.999.330 2.598.882 400.448
Skyr 11.695.060 10.889.529 805.531
Rjómi 1.801.923 1.610.877 191.046
Annað 197.630 268.480 -70.849
Alls 116.253.083 107.391.804 8.861.279

 

Skipting sölunnar á fitugrunni er nokkuð annar, sérstaklega hvað varðar viðbit, skyr og rjóma. Ef tölurnar eru settar í samhengi, þá má segja að aukning mjólkursölu á þessum 5 árum samsvari framleiðslu 50 meðal búa. Á síðasta verðlagsári framleiddu kúabúin að jafnaði 177.000 lítra mjólkur.