Beint í efni

Mjaltir einu sinni á dag

15.05.2006

Á Nýja-Sjálandi færist það í vöxt að bændur mjólki kýr sínar einu sinni á dag. Upplifa lang flestir það sem mjög jákvæða breytingu á búskap sínum, samkvæmt skoðanakönnun sem kynbótafyrirtækið Livestock Improvement hefur nýlokið. Um 340 býli mjólka einu sinni á dag í gegnum allt mjaltaskeiðið, sem er aukning um 40% frá síðasta framleiðsluári. Þessi bú eru af öllum stærðum og í öllum landsfjórðungum.

 

Helsti kosturinn sem bændur sjá við að mjólka einu sinni á dag er hinn mikli vinnusparnaður því samfara. Þá hefur þetta mjög jákvæð áhrif á heilsufar, holdafar og frjósemi kúnna. Þá er vinnuandi starfsfólks á þessum búum mjög jákvæður. 28% bænda telja að arðsemi búanna hafi aukist. Þessi aukni áhugi á einum mjöltum hefur orðið til þess að kynbótafyrirtækið hefur ákveðið að taka það inn í ræktunarskipulagið, sem sérstakan eiginleika. Væntingar um ræktunarávinning eru miklar, þar sem arfgengi hans er hátt.

 

Það skal tekið fram að aðstæður til mjólkurframleiðslu á Nýja-Sjálandi eru um margt ólíkar og hér á landi. Burður kúnna er bundinn við vorið (byrjun ágúst), eingöngu er fóðrað af beit og mjaltaskeiðið er að jafnaði 2-3 mánuðum styttra en hér tíðkast. Nyt einstakra kúa skiptir bændur litlu, heldur er lögð áhersla á að hámarka magn fitu og próteins af hektaranum.