Beint í efni

Mjaltaþjónum snarfækkar í Danmörku

12.06.2013

Á ársfundi NMSM (samstarfsvettvangur afurðastöðva um mjólkurgæði í mjólkuriðnaði á Norðurlöndunum) sem haldinn var í Tromsø í Noregi í síðustu viku var árlegt yfirlit um útbreiðslu mjaltaþjóna á Norðurlöndunum. Þar komu fram margar áhugaverðar staðreyndir um útbreiðsluna en í árslok 2012 voru 3.702 kúabú með 5.834 mjaltaþjóna á Norðurlöndunum. Flest mjaltaþjónabú er nú að finna í Noregi eða 1.032 en eðlilega fæst hér á landi.

 

Það sem þó vakti mesta athygli er sú staðreynd að í fyrsta skipti frá því að mjaltaþjónar komu fram á sjónarsviðið þá fækkar þeim á milli ára í Danmörku. Alls fækkaði mjaltaþjónabúunum í Danmörku úr 920 í 849 eða um 71 og mjaltaþjónum um 377. Ástæðan fyrir  fækkuninni er tvíþætt, þ.e. bæði hafa bú lokað vegna fjárhagsörðugleika en önnur eru í örum vexti og skipta úr mjaltaþjónum yfir í hagkvæmari mjaltatækni fyrir stór kúabú s.s. hringekjur eða stóra mjaltabása/SS