Beint í efni

Mjaltaþjónar og beit – nýtt rannsóknaverkefni

03.05.2013

Aukin notkun mjaltaþjóna við mjaltir er staðreynd hér á landi og víðar í Evrópu. Samhliða aukinni notkun mjaltaþjóna hafa kúabúin stækkað mikið og jafnframt hefur beit kúa dregist saman. Margir kúabændur með mjaltaþjóna telja tap fylgja því að beita kúnum m.a. vegna aukinnar vinnu og vegna þessarar þróunar hefur nú verið sett af stað nýtt áhugavert rannsóknaverkefni sem kallast Autograssmilk.
 
Verkefnið snýst um að þróa mismunandi beitarkerfi sem henta fyrir þá sem nota mjaltaþjóna, óháð búsetu og bústærð. Þessu ætla vísindamennirnir að ná með fimm punkta áætlun:
– Þróa nýjar fóðuráætlanir fyrir mjólkurkýr sem fá hluta fóðursins frá beit og eru mjólkaðar með mjaltaþjónum.
– Bæta árangur þess að taka mjaltaþjón í notkun þar sem kúm er beitt með notkun á nýrri tækni.
– Efla sjálfbærni kúabúa með mjaltaþjóna.
– Þróa ný hjálpartæki sem auðvelda kúabændum með mjaltaþjóna að ná fram hámarks hagkvæmni með beit.
– Efla og bæta kynningu á nýjungum svo kúabændur með mjaltaþjóna, hvar sem þeir búa í Evrópu, geti tileinkað sér hratt nýjungarnar.
 
Að verkefninu standa fremstu rannsóknaaðilar í landbúnaði í Evrópu frá sex mismunandi löndum: Frakklandi, Svíþjóð, Danmörku, Írlandi, Belgíu og Hollandi en hægt er að fræðast um þetta verkefni á heimasíðu þess: www.autograssmilk.eu /SS.