Beint í efni

Mjaltaþjónar á Íslandi í 10 ár

30.09.2009

Þann 7. september sl. voru liðin 10 ár frá því fyrsti mjaltaþjónninn var tekinn í notkun hér á landi. Þá tóku Sæmundur, Svanborg og fjölskylda á bænum Bjólu í Rangárþingi ytra (þá Djúpárhreppi) í gagnið Lely Astronaut A2 mjaltaþjón. Um ástæðu þess að mjaltaþjónninn varð fyrir valinu, segir Sæmundur að honum hafi verið boðið í ferð til Hollands í apríl 1999, þar sem nokkur mjaltaþjónabú voru heimsótt. Honum hafi litist vel á þessa nýju tækni og ákveðið fjárfesta í henni. Mjaltaþjónninn hafi staðist allar þær væntingar sem til hans voru gerðar, hann sé enn í fullri notkun og verði væntanlega næstu árin.

Sonur Sæmundar, Ágúst, er nú tekinn við búi í Bjólu og bætti hann við öðrum Lely mjaltaþjóni í fjósið árið 2007.

 

Mér er það minnisstætt að undir lok B.Sc. náms míns í búvísindum, vorið 1999, hélt ég fyrirlestur um mjaltaþjóna í námskeiði um bútækni. Niðurlagsorð fyrirlestrarins voru á þá leið að ég teldi miklar líkur á, að íslenskir kúabændur myndu tileinka sér þessa nýju tækni á næstu árum. Það hefur gengið eftir og í dag eru alls 115 mjaltaþjónar í notkun hér á landi, 82 Lely Astronaut og 33 DeLaval VMS. Hátt í fjórðungur mjólkurframleiðslunnar hér á landi kemur frá búum með mjaltaþjóna.

 

Myndina hér að neðan tók Áskell Þórisson, þáverandi ritstjóri Bændablaðisins, þegar opið hús var í Bjólu í tilefni af gangsetningu mjaltaþjónsins. Það var 26. september 1999.

 

Frá hægri: Ágúst Sæmundsson, Jón Sæmundsson, Sæmundur B. Ágústsson, Cees (hollenskur starfsmaður Lely), Bergur Ketilsson og Oddur Ólafsson, þá starfsmenn hjá Vélum og Þjónustu hf.