Beint í efni

Mjaltaþjónabú með nýtt heimsmet!

09.02.2017

Í Bændablaðinu í dag er birt uppgjör um fjölda og framleiðslu mjaltaþjóna á Íslandi 2016. Þar kemur m.a. fram að um síðustu áramót voru hér í framleiðslu 150 bú með 188 mjaltaþjóna eða 1,25 mjaltaþjóna að jafnaði á hverju búi. Þessi bú lögðu inn 62,8 milljónir lítra sem var 41,8% af heildarframleiðslunni. Það er nýtt heimsmet samkvæmt áræðanlegum heimildum.

Þessi bú lögðu að meðaltali inn 418 þúsund lítra á síðasta ári en bú sem nota aðra mjaltatækni löguð að jafnaði inn 181 þúsund lítra. Sé horft til afurðamagns þá var innlögð mjólk eftir afurðahæsta mjaltaþjónninn 514 þúsund lítrar sem er all nokkuð frá Íslandsmetinu sem eru 541 þúsund lítrar.

Hvert mjaltaþjónabú með 69 árskýr að meðaltali og 55 árskýr pr. mjaltaþjón og var meðalnyt búanna, sem voru í skýrsluhaldi, 6.596 kg. Bú sem nota aðra mjaltatækni voru að meðaltali með 5.829 kg. Það voru því að jafnaði 13,2% meiri afurðir á mjaltaþjónabúum, sem er í samræmi við væntingar um aukna framleiðslu m.a. vegna tíðari mjalta.

Ekki nema 6 bú voru með lægri frumutölu en 150 þúsund og þá voru 33 bú með hærri frumutölu en 300 þúsund. 30 bú voru með lægri líftölu en 20 þúsund og 8 af þeim með lægri líftölu en 15 þúsund. Þá voru 27 bú með hærri líftölu að jafnaði en 50 þúsund. Nánar má lesa um málið í Bændablaðinu í dag/SS