Beint í efni

Mistök í fóðurefnagreiningum kostuðu 400 kúabú stórfé

06.06.2011

Að minnsta kosti fjögur hundruð sænsk kúabú töpuðu töluverðum fjárhæðum vegna mistaka sem gerð voru hjá efnagreiningarfyrirtækinu Eurofins Food & Agro. Það var Svensk Mjölk, samtök sænskra afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sem komst að þessari niðurstöðu eftir að hafa rýnt í efnagreiningarniðurstöður 1.700 kúabúa.

 

Samkvæmt niðurstöðum Svensk Mjölk hafði Eurofins greint ranglega orkuinnihald í fjölmörgum fóðursýnum frá búunum þannig að orkuinnihaldið var vanmetið. Fyrir vikið gáfu kúabændurnir meira af fóðrinu og/eða viðbótarorku til þess að mæta hinum meinta orkuskorti.

 

Misjafnt er á milli búa hve miklu þau töpuðu á þessum mistökum en dæmi eru um að tapið nemi um 5 sænskum krónum á dag á hverja kú eða sem nemur 93 íkr/kú á innistöðutímanum. Til viðbótar þessu tjóni kemur að offóðrunin gaf ójafnvægi miðað við þarfir og hafði þar með óbein neikvæð áhrif á kýrnar sjálfar í formi holdsöfnunar.

 

Svensk Mjölk hefur nú ráðið lögfræðinga til þess að setja upp bótakröfur viðkomandi búa vegna bæði hins beina og óbeina kostnaðar sem kom til vegna þessara mistaka Eurofins. Á sama tíma hafnar Eurofins hinsvegar bótaskyldu og segir forstjóri þess málið of gamalt til þess að geta talist bótaskylt/SS.