
Missti 50 kýr vegna bótúlisma
12.12.2017
Breski kúabóndinn James Stephenson frá Clitheroe í Lancaskíri í Englandi lenti heldur betur í ömurlegri lífreynslu um þarsíðustu helgi þegar hann missti 50 kýr vegna bótúlisma. Bótúlismi er alvarlegur lömunarsjúkdómur sem stafar af taugaeitri sem bakterían Clostridium botulinum býr til og þegar James fór út eftir hádegið að líta eftir kúnum fann hann eina dauða og önnur var afar slöpp. Fljótlega fór að bera á lömunareinkennum hjá fleiri kúm og drápust þær svo hver af annarri og varð ekkert við ráðið. Eitrið var í fóðri sem mjólkurkýrnar höfðu fengið og einungis 30 kýr lifðu af þessa alvarlegu eitrun.
James sagði þetta hafa verið líkt og að vera í hryllingsmynd sem ætlaði engann enda að taka og þrátt fyrir að fá alla mögulega aðstoð dýralækna fór sem fór. Eins og áður segir lifðu 30 kýr þetta af og allir aðrir gripir, sem fengu annað fóður, veiktust ekki. Þrátt fyrir sýnatökur á fóðri búsins hefur ekkert fundist sem bendi til frekari eiturs í fóðrinu og líklega var einfaldlega um ótrúlega óheppni að ræða, líkega af völdum dauðs fugls í stæðunni sem er þekkt uppspretta þessarar bakteríu sem framleiðir þetta skelfilega eitur/SS.