Misjafnt gengi stóru afurðafélaganna
22.09.2016
Mörg af stóru framleiðendasamvinnufélögunum í löndunum í kringum okkur hafa nú skilað hálfs árs uppgjöri til eigenda sinna og er nokkuð misjafnt gengi á þessum félögum. Þannig var uppgjör hollenska FrieslandCampina ekki sérlega gott en félagsmenn félagsins hafa aukið framleiðsluna um 12% á fyrri helmingi ársins og gat félagið ekki komið mjólkinni inn á markaði sem bera háa framlegð. Fór því stór hluti af umframmjólkinni á uppboðsmarkað fyrir duft og smjör en sá markaður skilar allra minnstu fyrir umframmjólk, svo niðurstaða hálfs árs uppgjörsins er því ekki sérlega góð. Þess utan er mikil samkeppni á markaðinum og verð hefur því farið lækkandi á öllum helstu mjólkurvörum. Alls hefur orðið 17% tekjusamdráttur í hlutfalli við innvegna mjólk þessa fyrstu sex mánuði ársins, miðað við árið í fyrra.
Hitt stóra samvinnufélag kúabænda hér í norðurhluta Evrópu, Arla, hefur einnig skilað sex mánaða uppgjöri og það er all frábrugðið FrieslandCampina uppgjörinu. Arla hefur tekist að koma umframmjólkinni í verð á markaði sem skila góðri framlegð. Þrátt fyrir þetta hefur heildarveltan dregist saman á fyrstu sex mánuðum ársins í samanburði við árið á undan, sem skýrist af lægra verði mjólkurvara á markaði. Samdrátturinn í tekjum er þó ekki „nema“ 5,3% og nam hagnaður fyrstu sex mánuðanna 15,9 milljörðum íslenskra króna sem svarar til 2,5% af veltu/SS.