Beint í efni

Misgóður gangur í finnskri mjólkurvinnslu

08.03.2012

Hið finnska samvinnufélag framleiðenda, Valio, náði að auka veltuna um 6% á síðasta ári og nam hún alls 1,9 milljörðum evra eða um 317 milljörðum íslenskra króna. Árangurinn er í raun enn betri en tölurnar sýna þegar horft er til þess að Valio hafði úr færri lítrum að spila en innvigtun mjólkurinnar var 1,5% minni árið 2011 en fyrra ár. Alls nam hagnaður samstæðunnar 53 milljónum evra eða um 8,8 milljörðum íslenskra króna sem er mun betri árangur en árið 2010 þegar hagnaðurinn var 39 milljónir evra.
 
Á sama tíma gekk næst stærsta afurðafélagi landsins, Ingman, ekki nærri eins vel. Það félag er í eigu Arla en félagið var keypt af Arla árið 2008. Þó svo að félagið sé með um 25-30% af finnska markaðinum var það rekið með töluverðu tapi, en tap þess nam 2,2 milljörðum íslenskra króna. Þó svo að um taprekstur hafi verið að ræða náði félagið einnig að auka veltuna um 6% líkt og Valio og nam heildarvelta félagsins um 53 milljörðum íslenskra króna árið 2011.
 
Skýringarnar á slöku gengi skýra forsvarsmenn félagsins af miklu verðstríði sem félagið á við Valio á ferskvörumarkaðinum og hefur Valio m.a. verið kært til samkeppnisyfirvalda þar sem það er sakað um að halda mjólkurverðinu undir kostnaðarverði. Valio hefur hinsvegar hafnað þessu og segir einfaldlega aðrar afurðastöðvar ekki vera nógu hagkvæmar til þess að selja mjólkina jafn ódýrt og Valio/SS.