Beint í efni

Minni dönsku kúabúin munu standa betur

24.09.2010

Í nýrri skýrslu um afkomuþróun í danskri mjólkurframleiðslu næstu þrjú árin er því spáð að minni kúabúin skili hagnaði í ár, sem og næstu tvö ár á meðan stærri búin muni að líkindum standa verr. Rétt eins og á Íslandi hafa kúabú í Danmörku ekki farið varhluta af efnahagsástandinu og var almennt séð tap á rekstri kúabúa árið 2009. Útlit er þó betra nú eins og fram kemur í skýrslu frá Þekkingarsetri Landbúnaðarins (Videncentret for Landbrug) í Skejby. Enn er nokkur

óvissa með ástand mála árið 2012 en spádómar um hækkandi vexti gera útreikninga fyrir það ár erfiða.

 

Þrátt fyrir spá um töluvert betri rekstur næstu árin verður afkoman ekki góð hjá minni kúabúunum, þ.e. búum með 80-160 kýr, en því er spáð að tekjur og gjöld haldist nokkuð í hendur á þessum búum næstu árin. Hinsvegar verður afkoma þessara minni búa töluvert betri en búa sem flokkast sem stór bú, þ.e. bú með 240-320 kýr, en reiknað er með að þessi bú verði að meðaltali rekin með tapi næstu árin.

 

Athygli vekur sú staðreynd að um þriðjungur allra kúabúa, óháð stærð, er rekinn með góðri afkomu og er því spáð að svo verði áfram næstu árin. Mikill afkomumunur innan hvers stærðarflokks búa gefur jafnframt vonir um að leiðbeina megi öðrum bændum á rétta braut.