
Minna fyrir mjólkina sé fóðrið erfðabreytt
10.09.2016
Norðurevrópski afurðarisinn Arla hefur nú gefið út að bændur sem framleiða mjólk frá kúm sem fá ekki erfðabreytt fóður geti fengið 3,5% hærra afurðaverð. Í dag er almennt bannað að rækta erfðabreyttar plöntur en mikið magn af bæði sojapróteini og maís kemur af ökrum þar sem notast hefur verið við erfðabreytingu. Í Þýskalandi kalla verslanir eftir því að geta boðið upp á mjólk sem er vottuð þannig að það sé tryggt að hún sé ekki framleidd með kjarnfóðri sem getur innihaldið erfðabreytt fóður og því kalli hefur Arla nú ákveðið að svara.
Í fyrstu stendur einungis dönskum bændum innan Arla til boða að breyta framleiðslu sinni svo unnt sé að votta hana en síðar stendur til að gera slíkt hið sama í fleiri löndum. Með þessu skrefi er þó dagljóst að önnur stór afurðafélög munu feta í sömu fótspor og setja á markað mjólk sem hægt er að merkja með „Non GM food“ stimpli, en með honum felst staðfesting á því að kýrnar hafi ekki fengið fóður sem rekja megi til erfðabreytingar/SS.