Beint í efni

Milljarðatuga hagnaður afurðastöðva

05.03.2011

Árið 2010 reyndist afurðastöðvum víða um heim afar hagfellt en þessa dagana er verið að greina frá rekstrarniðurstöðum margra þeirra. Framleiðenda samvinnufélögin í Danmörku og Svíþjóð eru þar engin undanteking en bæði Arla og Skånemejerier hafa nú skilað uppgjöri síðasta árs.

 
Uppgjörið fyrir Skånemejerier leiddi í ljós hagnað félagsins upp á 5,5 milljarða íslenskra króna sem er glæsilegur árangur miðað við fyrra ár þegar hagnaðurinn nam rétt

um hálfum milljarði króna. Hluta þessa hagnaðar verður varið til innri uppbyggingar félagsins en markmið þess er að greiða 4 sænskar krónur fyrir kg. mjólkur eða um 73 íslenskar krónur fyrir kg. Til þess að ná megi þessu markmiði þarf að styrkja félagið innanfrá og efla. Stórum áfanga á þessari leið var lokið á síðasta ári þegar gerður var samstarfssamningur við Danone, eitt stærsta afurðafélag í heimi á sviði mjólkurafurðavinnslu. Öðrum hluta hagnaðarins verður annars vegar deilt út sem álagsgreiðslur til félagsmanna og hins vegar til þess að efla stofnsjóðinn, sem bar 3% ávöxtun árið 2010.

 
Þá var hagnaður Arla á síðasta ári einnig verulegur eða 27,5 milljarðar íslenskra króna eða sem nemur 3,8 milljónum á hvern innleggjenda að jafnaði. Í samræmi við fyrri ákvarðanir félagsmanna um uppbyggingu Arla til ársins 2015 verður þorri fjármagnsins nýttur til þeirrar vinnu eða sem nemur 15,2 milljörðum króna, annars vegar 10,1 milljarður í fjárfestingarverkefni og 5,1 milljarður í stofnsjóð. 12,3 milljarðar renna svo til félagsmanna sem 2 kr. álagsgreiðslur á hvert innlagt kg mjólkur eða að jafnaði um 1,7 milljónir króna á hvern innleggjanda.