Milliríkjasamingur Íslands og ESB um landbúnaðarafurðir
18.09.2015
Í gær var undirritaður milliríkjasamningur milli Íslands og ESB um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla á þeim. Samningurinn sjálfur hefur á þessari stundu ekki verið gerður opinber og eftir er að staðfesta hann af samningsaðilum. Á meðan svo er, gefst ekki tækifæri til að meta áhrif hans til hlítar. Þó hafa helstu stærðir í honum komið fram í fréttum.
Verði samningurinn staðfestur, eykst tollfrjáls innflutningskvóti frá ESB á osti í 380.000 kg, á sérosti (ekki liggur fyrir skilgreining á því í hverju það felst) í 280.000 kg og nautakjöti í 696.000 kg. Á móti eykst tollfrjáls útflutningskvóti frá Íslandi á skyri í 4.000.000 kg, á smjöri í 500.000 kg og á osti í 50.000 kg. Í töflunni hér að neðan má sjá umreikning á framagreindu magni yfir í lítra af mjólk, bæði á fitu- og próteingrunni. Tölur á fitu- og próteingrunni eru meðaltalstölur; efnainnihald afurðanna hefur að sjálfsögðu áhrif þar á.
Vörutegund | Innflutningskvóti frá ESB, kg | Lítrar á fitugrunni | Lítrar á próteingrunni |
Ostur | 380.000 | 3.500.000 | 2.700.000 |
Sérostur | 280.000 | 2.600.000 | 2.000.000 |
Útflutningskvóti frá Íslandi, kg | |||
Skyr | 4.000.000 | 150.000 | 12.000.000 |
Smjör | 500.000 | 10.500.000 | 700.000 |
Ostur | 50.000 | 400.000 | 300.000 |
696 tonna nautakjötskvóti, jafngildir síðan um 1.150 tonnum af skrokkum, eða sem nemur 25-30% af innanlandsframleiðslunni undanfarin ár.
Til að setja framangreindar tölur um mjólkurafurðir í samhengi, þá er mjólkurframleiðsla aðildarlanda ESB um 150 milljónir tonna á ári, 150.000.000.000 ltr, eins og sjá má hér. Mjólkurframleiðsla á Íslandi er tæplega 1/1000 af ESB, eða 130-140 milljónir lítra.
Með samningunum er ESB veittur tollkvóti á osti, sem nemur tæplega 10% af ostamarkaði hér á landi, en undanfarna 12 mánuði er sala á innlendum osti hér á landi um 6.000 tonn.
Markaðsaðgangur Íslands er um það bil 13 milljónir lítra af mjólk, eða sem nemur tæplega 0,009% af mjólkurframleiðslu aðildarríkja ESB.
Líkleg áhrif á mjólkurmarkað ESB af 0,009% tollfrjálsum markaðsaðgangi Íslands eru sama og engin, en áhrifin af 10% markaðsaðgangi ESB til Íslands geta hins vegar orðið umtalsverð./BHB