Beint í efni

Milliríkjasamingur Íslands og ESB um landbúnaðarafurðir

18.09.2015

Í gær var undirritaður milliríkjasamningur milli Íslands og ESB um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla á þeim. Samningurinn sjálfur hefur á þessari stundu ekki verið gerður opinber og eftir er að staðfesta hann af samningsaðilum. Á meðan svo er, gefst ekki tækifæri til að meta áhrif hans til hlítar. Þó hafa helstu stærðir í honum komið fram í fréttum.

Verði samningurinn staðfestur, eykst tollfrjáls innflutningskvóti frá ESB á osti í 380.000 kg, á sérosti (ekki liggur fyrir skilgreining á því í hverju það felst) í 280.000 kg og nautakjöti í 696.000 kg. Á móti eykst tollfrjáls útflutningskvóti frá Íslandi á skyri í 4.000.000 kg, á smjöri í 500.000 kg og á osti í 50.000 kg. Í töflunni hér að neðan má sjá umreikning á framagreindu magni yfir í lítra af mjólk, bæði á fitu- og próteingrunni. Tölur á fitu- og próteingrunni eru meðaltalstölur; efnainnihald afurðanna hefur að sjálfsögðu áhrif þar á.

 

Vörutegund Innflutningskvóti frá ESB, kg Lítrar á fitugrunni Lítrar á próteingrunni
Ostur 380.000 3.500.000 2.700.000
Sérostur 280.000 2.600.000 2.000.000
Útflutningskvóti frá Íslandi, kg
Skyr 4.000.000 150.000 12.000.000
Smjör 500.000 10.500.000 700.000
Ostur 50.000 400.000 300.000

696 tonna nautakjötskvóti, jafngildir síðan um 1.150 tonnum af skrokkum, eða sem nemur 25-30% af innanlandsframleiðslunni undanfarin ár.

 

Til að setja framangreindar tölur um mjólkurafurðir í samhengi, þá er mjólkurframleiðsla aðildarlanda ESB um 150 milljónir tonna á ári, 150.000.000.000 ltr, eins og sjá má hér. Mjólkurframleiðsla á Íslandi er tæplega 1/1000 af ESB, eða 130-140 milljónir lítra.

 

Með samningunum er ESB veittur tollkvóti á osti, sem nemur tæplega 10% af ostamarkaði hér á landi, en undanfarna 12 mánuði er sala á innlendum osti hér á landi um 6.000 tonn.

 

Markaðsaðgangur Íslands er um það bil 13 milljónir lítra af mjólk, eða sem nemur tæplega 0,009% af mjólkurframleiðslu aðildarríkja ESB.

 

Líkleg áhrif á mjólkurmarkað ESB af 0,009% tollfrjálsum markaðsaðgangi Íslands eru sama og engin, en áhrifin af 10% markaðsaðgangi ESB til Íslands geta hins vegar orðið umtalsverð./BHB