Beint í efni

Milkiland á fullri ferð

29.07.2013

Milkiland sem er stærsta afurðafélag Úkraínu, og er einnig með starfsstöðvar í Rússlandi og Póllandi, er á mikilli siglingu þessi misserin. Reksturinn hefur gengið vel en félagið vinnur úr u.þ.b. 750 milljón lítrum af mjólk árlega í 11 afurðastöðvum. Í fyrra jókst velta Milkiland um 3% og nam hagnaður þess eftir skatta 13,6 milljónum Evra eða 2,2 milljörðum íslenskra króna.

 

Það er all sérstök saga á bak við þróun þessa félags en árið 2011 ákváðu kúabændurnir, en Milkiland er samvinnufélag kúabænda, að ráða til þess reyndan breskan framkvæmdastjóra sem hafði mikla reynslu af rekstri afurðastöðva. Þetta hefur heldur betur skilað sér í stórauknum umsvifum, uppkaupum og tekjuafgangi sem reksturinn snýst vissulega um. Þá keypti félagið í fyrra fyrsta kúabú sitt en þar er verið að byggja nú fjós fyrir 6.800 mjólkurkýr en ætluð framleiðsla fjóssins, þegar það verður komið í fulla framleiðslu nú í haust, verður 40-50 milljónir lítra. Ástæða þess að félagið er með eigið kúabú er einfaldlega fyrirséð vöntun á mjólk samhliða auknum umsvifum/SS.