Beint í efni

Milk Link í Bretlandi í stórsókn

19.12.2011

Í tengslum við stækkun á hinni glæsilegu afurðastöð sinni í skoska bænum Lockerbie hefur félagið Milk Link þurft að slást við aðrar afurðastöðvar um mjólk frá kúabændum svæðisins og hefur það gengið framar vonum samkvæmt upplýsingum frá félaginu. Eftir verulegar breytingar á afurðastöðinni getur félagið bætt við sig innvigtun mjólkur um 120 milljónir lítra árlega og nú þegar hefur verið gengið frá kaupsamningum við kúabændur um 40% þess magns, en ný ostavinnsla Milk Link opnar í lok næsta árs.

 

Í Bretlandi gera félögin bindandi samninga við félagsmenn sína, en Milk Link er samvinnufélag framleiðenda. Hver samningur er bundinn í eitt ár, þ.e. með árs uppsagnarfresti, og því er mikilvægt fyrir Milk Link að gera þessa kaupsamninga einmitt núna svona löngu áður en ostaframleiðslan hefst. Eftir stækkun Lockerbie afurðastöðvarinnar verður ostavinnslugetan 37 þúsund tonn í þessari einu afurðastöð og mun hún þurfa til þeirrar framleiðslu um 370 milljónir lítra mjólkur árlega/SS.

 

Nánar má fræðast um Milk Link hér: www.milklink.com