Beint í efni

Miklar breytingar á toppnum!

16.08.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir júlí 2011 eru komnar út hjá Bændasamtökunum og hafa enn orðið all nokkrar breytingar á stöðu búa og kúa frá síðasta uppgjöri. Nú reiknast meðalafurðir í Hraunkoti hæstar yfir landið og kýrin Systa frá Syðri-Bægisá hefur krækt í efsta sæti kúa og velt hinni nú þjóðþekktu Hófý frá Keldudal úr því sæti.

 

Alls komu 605 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 92%, en jafn mörg bú voru með í mánuðinum þar á undan. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 21.799 eða 36,0 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í júní sl. var meðalfjöldinn 36,5.

 
Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að meðalafurðirnar eru á góðri siglingu og fara úr 5.335 kg í júní í 5.355 kg í júí. Próteinhlutfallið var 3,36 og fituhlutfallið 4,21 (hækkar um 0,01 frá júní) og framleiðsla verðmætaefna því 405,3 kg. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í júlí í fyrra voru meðalafurðirnar þá 5.327 kg. Afurðirnar eru því að aukast frá því fyrir 12 mánuðum um 0,5% (jukust um 0,7% frá júní 2010 – júní 2011) og má því segja að framgangurinn í afurðaaukningu sé vel innan marka. Samtals reiknast nú 16 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er sami fjöldi og í júní og eitt bú er nú yfir 8.000 lítrum.
 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru nú í Hraunkoti (17,0 árskýr) en þar var meðalnytin 8.015 kg með 4,35% fitu og 3,50% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 629 kg. Hraunkot er nýtt bú á toppi listans, en Hóll í Sæmundarhlíð var hæsta búið í þessum flokki búa i júní!
 
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru nú á ný í Kirkjulæk 2 Reykjahlíð (41,5 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.944 kg með 4,11% fitu og 3,47% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 602,2 kg. Í síðasta mánuði var Reykjahlíð afurðahæsta búið í þessum stærðarflokki búa.
 
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (99,1 árskýr), en þar var meðalnytin 7.554 kg með 4,07% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 567 kg. Ekkert bú í þessum stærðarflokki er enn sem komið er nálægt meðalafurðunum í Gunnbjarnarholti.
 
Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er nú ný á toppnum en það er kýrin Systa (undan Tein 970001) frá Syðri-Bægisá með 12.206 kg sl. 12 mánuði með 3,28% próteini og 4,08% fitu og verðmætaefnin því alls 898 kg.
Fram kemur í yfirliti BÍ að 12 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg./SS

Smelltu hér til að fræðast nánar um niðurstöður skýrsluhaldsins