Beint í efni

Mikilvægt að huga að stein- og snefilefnum í kjarnfóðri

29.10.2010

Þegar kúabændur standa frammi fyrir vali á kjarnfóðri þarf að taka tillit til fjölmargra þátta eins og fram hefur komið hér á naut.is, Að sögn Hólmgeirs Karlssonar, framkvæmdastjóra fóðurframleiðandans Bústólpa, leggur fyrirtækið mikla áherslu á mikilvægi þess að fóður jórturdýra, hvort heldur er til mjólkurframleiðslu eða kjötframleiðslu, innihaldi rétt og nægjanlegt magn stein- og snefilefna til að tryggja heilbrigði og nyt gripanna. „Gróffóðrið er undirstaða fóðursins og því er ávallt mikilvægt fyrir okkur að þekkja efnainnihald þess því þannig getum við aðlagað kjarnfóðurframleiðsluna okkar að

þörfum búfjárins á hverjum tíma“, sagði Hólmgeir í viðtali við naut.is.

 

Sérframleiddar steinefna- og vítamínblöndur

Allar steinefna- og vítamínblöndur sem notaðar eru hjá Búsólpa við kjarnfóðurframleiðsluna eru framleiddar sérstaklega fyrir Bústólpa þannig að þær henti íslenskum aðstæðum. „Það myndi aldrei ganga að nota staðlaðar erlendar blöndur þar sem þær henta ekki fyrir okkar sérstöku aðstæður hér á Íslandi. Þetta er vissulega dýrara fyrirkomulag en engu að síður afar mikilvægt“, sagði Hólmgeir að lokum.

 

Nánari upplýsingar um stein- og snefilefnin hjá Bústólpa má lesa í pistli á heimasíðu fyrirtækisins með því að smella hér.